Ungt fólk er ekki bara framtíðin, við erum líka nútíðin

„Okkar málefni eru í rauninni öll þau málefni sem varða ungt fólk. Persónulega, þá finnst mér að öll heimsins málefni geri það.“

Þetta segir Sigríður Þórunn Þorvarðardóttir, 19 ára meðlimur í Ungmennaráði Hornafjarðar. Nú á dögunum hóf Ungmennaráð Hornafjarðar aftur starf sitt eftir sumarfrí og fengum við því Sigríði Þórunni í viðtal, sem er meðlimur í ráðinu annað ár sitt í röð, en hún var formaður ráðsins í fyrra.

Formlegt ráð

„Við erum formlegt ráð innan stjórnsýslunnar og það er í lögum sveitarfélagsins að þetta ráð sé starfandi.“ útskýrir Sigríður. „Við störfum undir Fræðslu- og tómstundarráði sem starfar síðan undir, og með, öðrum ráðum í Sveitarfélaginu,“ hún hlær. „Smá flókið en við fengum voða fína glærukynningu á fyrsta fundinum okkar sem útskýrði hvernig þetta virkar allt saman. Ég hafði ekki hugmynd um það hversu mörg ráð eru starfandi undir bæjarstjórninni.“

sigridurthSamkvæmt Sigríði hittist ráðið að minnsta kosti einu sinni í mánuði, á föstum fundartímum í ráðhúsinu. „Við erum samt ekkert bara að sitja þarna og spjalla. Þetta er formlegt ráð og við fáum þóknun fyrir setu okkar á fundum, eins og aðrir meðlimir í öðrum ráðum. Við erum með málefni á dagskrá og formaður setur og slítur fundi. Það er alveg frekar gaman að hafa þetta smá formlegt því þá finnur maður að þetta er alvöru starf og við erum þarna til að hafa áhrif.“

Ásamt því að funda saman einu sinni í mánuði, fundar ráðið með Fræðslu- og tómstundarráði nokkrum sinnum í gegnum tímabilið. „Tímabil hvers ráðs er miðað við 1. september til 1. september ársins á eftir, en við tökum samt sumarfrí.“ útskyrir Sigríður. „Við höfum líka rétt á því að funda bæði með bæjarráði og bæjarstjórn, sem er gríðarlega spennandi en líka stressandi því það er alveg alvöru dæmi. Það var samt ótrúlega góð upplifun að prufa að tala á formlegum fundi fyrir framan bæjarstjórann og alla hina í bæjarstjórninni, því okkur fannst eins og það væri hlustað á okkur og vera áhugi fyrir því sem við vorum að segja, sem er nátturulega mjög mikilvægt til þess að gott samstarf sé á milli ráða.“

Fulltrúar tilnefndir eða kosnir

Aðspurð að því hvernig valið sé í ráðið svarar Sigríður:

„Sko, við erum ný búin að breyta reglunum varðandi það hverjir sitja í ráðinu. Aðalmenn eru fimm talsins; fulltrúi frá framhaldsskólanum, grunnskólanum, Þrykkjunni, Ungmennafélaginu Sindra, og óháður fulltrúi, sem er gjarnan frá atvinnulífinu. Eins og þetta var í fyrra, fyrir breytinguna, var forseti Nemendafélags FAS sjálfkrafa fulltrúi framhaldskólans, forseti nemendafélagsins í grunnskólanum fulltrúi frá grunnskólanum, formaður Þrykkjuráðs frá Þrykkjunni og síðan tilnefndi Sindri ungmenni frá sér og Fræðslu- og tómstundarráð tilnefndi óháðan fulltrúa frá atvinnulífinu. Allt yrðu þetta að sjálfsögðu að vera ungmenni, en það er miðað við fólk undir 25 ára.“

Ungmennaráð 2014-2015 breytti þessum reglum síðasta tímabil og ákvað að efna til kosninga í ráðið frekar. „Okkur fannst sanngjarnt að halda kosningar og vonuðum líka að það myndi valda því að ráðið yrði sýnilegra, því það hefur ekki verið mjög sýnilegt á seinustu árum. Ég vissi allavega ekkert hvað Ungmennráð var fyrr en mér var tilkynnt að sem forseti nemendafélagsins væri ég sjálkrafa meðlimur.“ Hún hlær. „Núna er þetta allavega þannig að grunnskólinn og Þrykkjan skiptast á að halda einum fulltrúa í tvö ár, í staðinn fyrir eitt, svo að það sé alltaf eitthver með reynslu innan ráðsins. Síðan á að efna til kosninga þar sem velja þarf fulltrúa, í nemendafélagi í FAS og í grunnskólanum og þrykkjunni þegar þeirra meðlimur er ekki sjálkrafa í ráðinu. Sindri tilnefnir síðan fulltrúa frá sér og Fræðslu- og tómstundarráð tilnefnir óháðan fulltrúa.“

Aðspurð að því hvort að það hafi verið kosningar í ár, segist Sigríður ekki alveg vera með það á hreinu.

„Ég var bara að flytja aftur heim, en ég eyddi september í bænum. Ég veit að það voru kosningar innan grunnskólans. Þrykkjan hélt sínum meðlim frá því í fyrra, þannig að það var ekki þörf á kosningum innan skólans. Það voru, að ég best veit, ekki kosningar innan FAS en ég veit ekki alveg afhverju. Félags- og tómstundarráðgjafi skólans tilnefndi núverandi meðlim í ráðið, að ég best veit. Þetta er líklega vegna þess að við vorum bara að breyta reglunum í byrjun sumars og þær voru kannski ekki alveg nógu skýrar. Vonandi verða haldnar kosningar næst og þá sérstaklega vegna þess að það er von okkar að gera Ungmennaráðið mjög sýnilegt og eftirsóknarvert, og auðvitað eiga allir að hafa jafnan möguleika til þess að prufa.“

„Ef ráðið er sýnilegt og spennandi verður það eftirsóknarvert
og þá er mikilvægt að allir þeir sem hafa áhuga
gefist kostur á því að bjóða sig fram til þátttöku.“

Ungmennaþing 2015

Í fyrra stóð Ungmennaráð 2014-2015 fyrir Ungmennaþingi, þar sem ungmennum í sveitarfélaginu gafst kostur á því að láta sig ýmis málefni varða og koma með hugmyndir varðandi hvað það vildi sjá í sveitarfélaginu sínu.

„Við vorum með nokkrar málstofur, til dæmis var ein málstofan með velferðamál og önnur með umhverfis- og skipulagsmál. Við fengum alveg rosalega mikið af upplýsingum út úr þessu þingi og það heppnaðist rosalega vel. Það kom skýrt fram að ungt fólk á Hornafirði hefur margt til málanna að leggja þegar kemur að hlutum sem því finnst skipta máli. Til dæmis, þá var mikið rætt um aðstöðu fatlaðra á Hornafirði og hvar og hvernig væri hægt að bæta hana. Þá langar krökkum á Hornafirði að haldin verði Gleðiganga næsta sumar og margt fleira.“

„Það sem við erum að vinna lang mest með er hinsvegar hugmyndin um ungmennahús. Við höfðum verið að hugsa mikið um þann möguleika áður en við héldum þingið og kynntum hugmyndina þar.“

Ungmennahús væri húsnæði þar sem ungt fólk á Hornfirði gæti komið saman, haldið viðburði eða haft opið hús og gert eitthvað saman. „Það vantar svo rosalega mikið kraft í félagslífið í þessum bæ,“ segir Sigríður. „Grunnskólinn hefur Þrykkjuna og það virðist vera að gera mjög góða hluti. Það vantar eitthvað fyrir okkur sem erum eldri, þá sérstaklega fyrir þá sem ekki eru í framhaldsskólanum. Okkur datt því ungmennahús í hug en þau eru starfandi víðsvegar um landið og þeim gengur mörgum vel. Ein hugmyndin var að samnýta húsnæði Þrykkjunar og veita ungu fólki á Hornafirði þannig vettvang til þess að koma saman, skapa, skemmta sér og spjalla. Það væri í rauninni hægt að gera hvað sem er.“

Ungmennahús væri ákveðin forvörn

„Við kynntum hugmyndina um Ungmennahús fyrir bæjarstjórn í fyrra og var eitt af okkar rökum að Ungmennahús væri ákveðin forvörn. Það hefur mikið verið í umræðunni hjá okkur núna að stökkið á milli grunnskóla og framhaldsskóla sé svo stórt, sérstaklega vegna pressu sem krakkar eru að upplifa varðandi það að þau verði að byrja að drekka. Staðan er sú að þeir krakkar sem voru að koma upp í framhaldsskólann núna og þeir krakkar sem eru enn í grunnskólanum eru ekki á sama stigi og eldri árgangar voru á sínum tíma. Þau eru ekki að byrja að drekka jafn ung og það er ekki fyrr enn þau koma upp á framhaldsstig að þau upplifa að þau þurfi að drekka til þess að passa inn og eiga möguleika á því að vera með. Því hvað annað er í boði? Við vildum svara þessari spurningu með því að segja; Ungmennahús. Möguleiki á sterku félagslífi.“

„Auðvitað eru alltaf einhverjir sem drekka
og vilja bara gera það, en ungmennahús væri
einfaldlega vettvangur til þess að gera það ekki.
Það er þá bara hægt að drekka einhverstaðar
annarstaðaren ungmennahúsið væri staður
til félagslífs þar sem áfengi kemur
málinu ekkert við.“

Tengiliður ungs fólks

„Ég tel að þetta ráð sé einstaklega mikilvægt, ef það er sýnilegt. Mér finnst að við eigum að vera nokkursskonar tengiliður fyrir ungt fólk á Hornafirði. Við erum opin fyrir öllum hugmyndum þannig að ég hvet fólk að hafa samband við okkur ef það eru einhverjar spurningar, málefni eða hugmyndir sem brenna á þeim. Við erum líka að vinna að því að búa til Facebook-síðu þar sem er hægt að fylgjast með okkur og hafa samband. Næst verður valið í Ungmennaráð í september og ég vona að sem flestir sýni áhuga og bjóði sig fram. Þetta er frábær lífsreynsla. Þetta er í rauninni ekki bara starf heldur líka áhugamál og ég finn hversu mikil áhrif við getum haft ef við virkilega viljum og reynum.“ segir Sigríður Þórunn og bætir síðan við. „Mér finnst viðeigandi að enda þetta viðtal á mottóinu sem við notuðum óspart í ungmennaráði í fyrra: Ungt fólk er ekki bara framtíðin, við erum líka nútíðin.“

 

Meðlimir Ungmennaráðs 2015-2016 eru:

Aðalmenn:
Ragnar Magnús Þorsteinsson, Ungmennafélagið Sindri
Sigríður Þórunn Þorvarðardóttir, Óháður fulltrúi
Sunna Dögg Guðmundsdóttir, Þrykkjuráð
Þorkell Ragnar Grétarsson, Nemendafélag FAS
Þórdís María Rossiter Einarsdóttir, Nemendafélag Grunnskóla Hornafjarðar

Varamenn:
Agnar Jökull Imsland Arason, Nemendafélag FAS
Anna Birna Elvarsdóttir, Ungmennafélagið Sindri
Ingólfur Ásgrímsson, Nemendafélag Grunnskóla Hornafjarðar
Nani Halldórsdóttir, Óháður fulltrúi
Ægir Sigurðsson, Þrykkjuráð

Guðrún Ósk Gunnarsdóttir