Er ungt fólk þátttakendur í samfélaginu?

12042922_10207378763289309_8251085560921196697_n

Ég hef oft velt því fyrir mér hvort að ungt fólk sé bara alls ekki velkomið í það sem er að gerast í samfélaginu. Hér á Höfn eru þó nokkur félagasamtök og klúbbar sem eru að gera allskonar áhugaverða hluti, en fáir eru að vinna markvisst að því að fá ungt fólk með sér í lið. Ungu fólki finnst upp til hópa eins og það sé ekki velkomið í þessa klúbba eða samtök vegna þess að engin segir við okkur að við megum vera með, að við séum velkomin. Auðvitað virkar þetta í báðar áttir og kannski mætti ungt fólk vera duglegra við það að athuga hvort það sé velkomið. Stundum getur bara verið soldið erfitt að eltast við eitthvað sem mann langar að gera ef maður er hræddur við það að vera hafnað.

Nú er ég sjálf búin að vera í sambandi við þó nokkur félög sem hafa öll sýnt því áhuga að taka við ungu fólki. Allir þeir sem svöruðu spurningarkönnun sem við gerðum voru tilbúnir til þess að koma og halda kynningu fyrir þá sem vilja um það starf sem á sér stað innan þeirra hóps, sem er auðvitað frábært. En hvers vegna hefur engum dottið í hug að koma til okkar og bjóðast til að vera með kynningar? Er það vegna þess að fólk heldur að ungt fólk hafi engan áhuga á því sem er að gerast í samfélaginu og vilji hreinlega ekki taka þátt? Ég held að það sé ákveðið bil á milli þessara tveggja hópa. Annar hópurinn heldur að hann sé ekki velkomin og hinn hópurinn heldur að sá fyrri hafi engan áhuga á því að vera með. Við Í fjölmiðlafræði í FAS erum að skoða þessi mál þessa dagana og ég vill bara segja það að við unga fólkið höfum skoðanir, við viljum taka þátt í samfélaginu og við erum komin til að vera.


Vigdís María Borgarsdóttir